Vatn er hollt og gott.....

Þegar kemur að heilsu, er vatnsdrykkja oft einn af fyrstu hlutunum sem kemur til tals. Vatn er okkur lífsnauðsynlegt og vatnið gegnir mörgum mikilvægum hlutverkum í líkamanum okkar.

Hérna eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga þegar kemur að því að hugsa um vatnsdrykkju.

  1. Hversu mikið vatn þarf ég að drekka yfir daginn?

    Að meðaltali losum við daglega um 2 - 2,5 lítra af vatni og því þurfum við að vinna upp það vökvatap með því að drekka svipað magn af vatni á móti. Þeir sem stunda mikla hreyfingu yfir daginn eru að losa ennþá meira vatn og þurfa því að drekka meira yfir daginn. Einnig getur það haft áhrif ef heitt er í veðri. Höfum einnig í huga að ef vökvatap verður mikið á stuttum tíma, skolum við út salti og natríum sem getur m.a valdið höfuðverk og þreytu. Því þurfum við oft á öðrum drykkjum að halda, t.d íþróttadrykkjum sem innihalda steinefni, sykrur og fleira.

  2. Þarf ég að drekka vatn ef ég drekk te eða kaffi?

    Aðrir drykkir eins og te eða kaffi koma ekki í stað vatnsdrykkju. Þessir drykkir eru allt í lagi í hófi, en koma aldrei í staðinn fyrir vatn. Koffín og sumar tegundir af te eru m.a.s vökvalosandi og valda því vökvatapi sem við þurfum að vinna upp með vatni.

  3. Hvenær yfir daginn á ég að drekka vatnið?

    Reyndu að drekka jafnt og þétt yfir daginn, ekki bara þegar þú finnur til þorsta. Við finnum oft ekki fyrir því að við séum þyrst en á sama tíma þurfum við samt vökva. Reynum að koma í veg fyrir að við verðum þyrst með því að drekka vatn reglulega yfir daginn.

  4. Ég á það til að gleyma að drekka vatn.

    Mjög góð regla er að drekka stórt vatnsglas með hverri máltíð og fá sér síðan sopa og sopa þess á milli yfir daginn. Þannig komumst við í ákveðna rútínu og auðveldara er að muna eftir vatninu. Einnig eru til öpp sem hægt er að hafa í símanum sem mynna okkur á vatnsdrykkjuna, getur verið sniðugt.

  5. Fæ ég ekki bjúg af því að drekka mikið vatn?

    Margir hverjir eru hræddir við það að fá bjúg af því að drekka vatn. Það er fjarri sannleikanum að það gerist. Aftur á móti eru meiri líkur á bjúgmyndun ef við drekkum ekki nóg vatn. Þá safnast natríum upp í líkamanum og það bindur vökvann. Með því að drekka vatn skolum við út aukamagni af natríum og þannig á líkaminn auðveldara með að losa vökvann.

Það er alltaf mikilvægt að drekka vatn og þá sérstaklega núna yfir sumartímann þegar hitnar í loftinu og sólín skín. Fólk fer meira út að æfa í hitanum og þá er oft nauðsynlegt að drekka meira af vatni. Með því að drekka meira af vatni eru minni líkur á að við finnum fyrir þorsta og þannig minnka líkurnar á að við séum að leita í sæta drykki eins og gos eða safa.

Verum dugleg í vatninu, við höfum aðgengi að besta vatni í heimi :)

glass_water.jpg
Guest User