Stærstu mistökin mín sem einkaþjálfari

Þegar maður hefur starfað sem einkaþjálfari í mörg ár og horfir til baka, þá eru alltaf einhverjir hlutir sem maður hefði viljað gera öðruvísi, hlutir sem ef til vill hefði verið hægt að gera betur og hlutir sem hefði verið hægt að sleppa. En eins og með allt annað í lífinu, þá eru mistökin til þess að læra af þeim og ég ætla að deila nokkrum atriðum með ykkur sem gætu gagnast ykkur í framtíðinni.


1. Að verða meiri ”vinur” viðskiptavinarins heldur en einkaþjálfari

Ég hef alltaf átt frekar erfitt með að halda samskiptum við viðskiptavini mína á vinnutengdum nótum. Margir þeirra hafa verið svo skemmtilegir og mér hefur líkað svo vel við þá að ég hef boðið þeim í afmæli og matarboð og á ýmsar aðra viðburði. Það þarf ekkert að vera rangt við að verða vinur viðskiptavinarins, alls ekki. En aftur á móti er enginn fagmannlegur kostur við það. Hugsanlegir ókostir finnast þó. Þetta byrjar alltaf með örfáum auka óþörfum skilaboðum eða þá að samræðurnar í tímanum fara að ílengjast og verða lengri en þörf er á, oft fara þær einnig að snúast um hluti sem tengjast þjálfuninni alls ekki neitt. Skemmtilegar samræður eru allt í lagi í tímanum, en þegar þær eru farnar að bitna á æfingunni, þá eru þær ekki í lagi lengur.

Ég fann alls konar afsakanir fyrir því að hlutirnir væru svona, margar mjög góðar, en samt var það bara afsökun. Höldum sambandinu faglegu og allt verður miklu auðveldara. Það tók mig 10 ár að finna það út.


2. Að vera alltaf í vinnunni
Ég vildi gefa þá allra bestu þjónustu sem völ var á. Það var í lagi að hringja eða senda skilaboð hvenær sem er á sólahringnum og ég svaraði sama hvað klukkan var. Ég var alltaf laus til þess að svara spurningum. Einnig var ég virkilega sveigjanlegur varðandi vinnutímann minn. Ef fyrsti viðskiptavinurinn vildi æfa kl 05:00 og sá síðasti kl 21:00 urðu þetta ansi langir dagar í ræktinni. Þetta hjálpaði mér að byggja upp traustan kúnnahóp og ég var alltaf fullbókaður. Viðskiptavinirnir náðu góðum árangri og voru ánægðir með mig sem einkaþjálfara, en í persónulega lífinu gekk þetta einfaldlega ekki upp. Þetta var virkilega stressandi og alltof mikið álag. Með tímanum verður þetta svo eðlilegt fyrir viðskiptavinina að geta haft samband hvenær sem er sólahrings og að sjálfsögðu var það engum nema mér að kenna fyrir að hafa ekki haft ákveðnar reglur strax í byrjun. Það erfiðasta er síðan að fara til baka og breyta þessu öllu og fá skipulag á hlutina. Það tók mig langan tíma að komast til baka úr þessum aðstæðum og fá skipulag á vinnudaginn minn.

 
3. Að taka að sér of marga viðskiptavini

Þegar hlutirnir ganga vel og eftirsóknin í þjálfun til þín er mikil, getur verið mjög erfitt að segja nei við verðandi viðskiptavini. Þú vilt reyna að ná sem flestum inn og hugsar um þetta sem einhverskonar uppgrip í vinnu hjá þér. Fyllir upp í vinnudaginn, bókar jafnvel viðskiptavini á æfingatímann þinn, síðan á matartímana og þar fram eftir götunum. Þetta er frábært fyrir fjárhagsstöðuna þína, en hræðilegt fyrir bæði líkamlegu og andlegu hliðina þína. Þú munt keyra þig út á örstuttum tíma. Einnig muntu fljótt sjá að þú átt í stökustu vandræðum með að sinna öllum þeim einstaklingum sem eru í þjálfun hjá þér og þjónustan verður eftir því.

Ef vinsældir þínar eru orðnar það miklar að þú getur haft biðlista í þjálfun til þín, þýðir það að þú ert að gera mjög góða hluti og veitir að öllum líkindum frábæra þjónustu. Reyndu þá frekar að verðleggja þig eftir því og passa þig á að hafa svigrúm til þess að sinna þeim viðskiptavinum sem eru hjá þér. Færri ánægðir viðskiptavinir eru alltaf betri en margir óánægðir viðskiptavinir.


4. Að láta mitt eigið áhugasvið hafa áhrif á þjálfun viðskiptavinarins

Þetta er hlutur sem ég held að margir þjálfarar tengi við, þótt sumir hafi kannski ekki áttað sig á því ennþá. Sem þjálfari hefur maður langtíma- og skammtímamarkmið fyrir viðskiptavini sína. Sveigjanleikinn sem við höfum til þess að þjálfa einstaklinga býður upp á endalausa hluti og leiðir og oftast nýtum við það í að notast við aðferðir eða tæki og tól sem við höfum brennandi áhuga á sjálf. Nú eða eitthvað sem við höfum nýlega lært um og erum þannig mjög áhugasöm að nota það til þess að prufa okkur áfram og öðlast meiri reynslu.
Þegar ég notaði TRX bönd í fyrsta skipti fannst mér þetta vera frábært verkfæri að vinna með og útfærði margar æfingar þannig að ég gæti notað TRX böndin í staðinn fyrir þau tæki sem ég notaði áður fyrr. Stöðugleiki, core æfingar, jafnvægisæfingar og fleira var stór fókus þessa dagana. Viðskiptavinunum fannst  þetta svakalega skemmtilegt í þokkabót, alltaf gaman að gera eitthvað nýtt. En miðað við rannsóknir og staðreyndir, þá eyddi ég hugsanlega aðeins of miklum tíma í að nota þetta. Hugsanlega hefði ég geta nýtt tímann betur með öðrum tækjum og áhöldum til þess að hámarka árangurinn. Við þurfum alltaf að hugsa um hvað er viðskiptavininum fyrir bestu og megum ekki gleyma okkur í að láta þá framkvæma hluti bara af því að við höfum óbilandi áhuga á þeim sjálf. Ég á ennþá mjög erfitt með þetta þótt ég hafi vitað þetta í mörg ár.


5. Að vera of mikið eða of lítið í því að senda viðskiptavini annað

Þegar ég byrjaði að starfa sem einkaþjálfari var ég mjög ragur að taka að mér viðskiptavini sem voru að glíma við meiðsli eða einhverskonar hluti sem ég þekkti ekki sjálfur. Það sem ég gerði var að áframsenda þá á lækna, sjúkraþjálfara, kírópraktora eða aðra einkaþjálfara sem ég vissi að hefðu þekkinguna til þess að sinna honum. Það er alls ekki rangt að gera þetta, sérstaklega ekki ef þú ert óörugg/ur. En það er margt sem við sem einkaþjálfarar getum gefið af okkur fyrir þessa einstaklinga sem aðrir fagaðilar eiga hugsanlega erfitt með að gera, t.d getum við oft gefið af okkur meiri tíma til þess að sinna þeim þar sem tími er oft mjög takmarkaður hjá sumum fagaðilum. Eftir 7-10 ár í starfi gerði ég einmitt það gagnstæða, ég tók flesta að mér. Ef ég þekkti ekki til ástandsins þá hafði ég samband við lækna, sjúkraþjálfara og kírópraktora sem ég þekkti og fékk vitneskju og leiðbeiningar. Ég sat fyrir framan tölvuna og las tímunum saman til þess að öðlast þekkingu sem mig vantaði. Þetta þarf ekki heldur að vera rangt ef þú notar heilbrigða skynsemi og veit hvar mörkin liggja og sendir þá sem virkilega þurfa á því að halda annað. Þú lærir jafnvel helling af þessu, en ég fékk ekki borgað fyrir helminginn af vinnunni minni þegar ég gerði þetta. En á öllum mínum árum sem þjálfari er ég ennþá að reyna að finna jafnvægið í þessum málum.


Núna hef ég gengið í gegn um allskonar erfiðleika og gert ótal mistök. Vonandi hjálpar þetta einhverjum sem er að stíga sín fyrstu skref.

 

management-mistakes-pic_678X381.jpg
Guest User