Verðandi og núverandi einkaþjálfarar - Forðumst Kóróna en eltum draumana

Það hefur líklegast ekki farið framhjá neinum að það eru virkilega skrítnir tímar í samfélaginu. Eitthvað sem við sáum bara í bíómyndum er svellkaldur veruleikinn og skemmtanagildið ekki það sama og að sitja heima og horfa á ræmu sem er skáldskapur út í gegn. Fólk tekur ástandinu misalvarlega, sumir halda áfram í sinni daglegu rútínu á meðan aðrir vinna og læra heima hjá sér og forðast alfarið að vera innan um fólk.

Þessum pósti er alls ekki ætlað að fjalla um það hvað fólk á að gera í þessum aðstæðum, enda er ég hvorki veiru- né faraldsfræðingur og ég læt það alfarið í hendur sérfræðinga að fræða okkur um það. Persónulega er ég ennþá nokkurn veginn í minni rútínu, ég þjálfa bæði crossfit tíma og einkaþjálfa ennþá það fólk sem vill og treystir sér til þess að mæta, enda er líkamsrækt streitulosandi og því mjög góð á þessum tímum og sumir einstaklingar segja það bjarga geðheilsunni að geta mætt. Einnig er ég ekki í þeim aðstæðum að vera í samneyti við eldra fólk eða sjúklinga af nokkru tagi, ef svo væri myndi ég endurskoða allt sem ég geri. Aftur á móti höfum við gert ýmsar ráðstafanir, meðal annars sett takmörk á fjölda í tímum, einungis meðlimir fá að mæta og svo framvegis. Fyrir þá sem ekki vilja mæta og halda sig heima eru heimaprógrömm í boði sem þeir geta notast við heima hjá sér.

Líkamsræktarstövarnar hálf tómar.

Staðreyndin er samt sú að þetta ástand hefur stórvægileg áhrif á starfsfólk flestra vinnustaða og þar eru þjálfarar engin undantekning. Fólk er að forðast líkamsræktarstöðvar, afbóka einkaþjálfun, hópíþróttir hafa verið lagðar niður í óákveðinn tíma o.s.frv.

Að sjálfsögðu skapar þetta óvissuástand hjá okkur og okkar stétt ásamt ótal öðrum einstaklingum í samfélaginu, ástand sem við vitum því miður ekki hvað varir lengi.

Nýtum tímann og eltum draumana.

Það liggur í augum uppi að margir þurfa að vera heima í marga daga, hvort sem þeir eru skikkaðir í sóttkví eða gera það sjálfviljugir og staðreyndin er sú að það getur verið virkilega erfitt að eyða svo löngum tíma án þess að fara út á meðal fólks, hafa lítið fyrir stafni og vera í eyrðaleysi.

Ein besta leiðin til þess að hindra eða komast út úr vítahring þunglyndis er að hafa eitthvað fyrir stafni…..hvað getum við gert?

Langar þig að verða einkaþjálfari? Þá er tíminn núna. Nýttu tímann sem þú hefur heima fyrir og menntaðu þig á meðan þú hefur tíma til þess að sökkva þér í námsefni og undirbúa starfsferil sem þig hefur dreymt um að eiga. Fáðu góðar hugmyndir að uppsetningu fyrir þína þjálfun, hvaða áherslur viltu hafa í þjálfuninni, þarftu heimasíðu eða aðra aukaþjónustu. Núna getur þú velt þessu öllu fyrir þér, sett niður á blað og byrjað undirbúninginn áður en allt fer á fullt aftur.

Ertu einkaþjálfari? Þá er tíminn til þess að sinna þeirri vinnu sem oft situr á hakanum vegna þess að við höfum ekki tíma sökum anna. Uppfæra heimasíður og skjöl eða rafrænt efni sem við notum. Getum við t.d bætt útlit prógramma? Eru námskeið, pistlar, bækur eða annað sem okkur langar að taka á netinu eða lesa til þess að bæta við okkur þekkingu. Vinna að hugmyndum að þjálfunaraðferðum sem okkur langar að koma í gang en höfum ekki haft tíma til áður, búa til eða stækka gagnagrunninn okkar varðandi æfinga- og/eða næringarprógrömm, búa til auglýsingaherferðir og margt fleira. Það er alltaf eitthvað sem við getum gert og núna er góður tími til þess að sinna þeim verkefnum á meðan ástandið er eins og það er. Það mun auðvelda okkur vinnuna þegar allt fer á fullt aftur seinna meir.

kóróna og heimavinna.jpg
Guest User