Smá pælingar varðandi hvatningu og aga

Persónulega þá hef ég mjög gaman af því að tala og hugsa um hvatningu (motivation), enda snýst starfið mitt að miklu leyti um það. Hvatning er frábær og getur gert mikið fyrir mann, en skortur á hvatningu getur haft algjörlega öfug áhrif. Þegar hvatningin dvínar eða hverfur, þá þurfum við á aga (discipline) að halda til þess að vinna verkin áfram.

Þetta eru tveir mismunandi hlutir sem við erum að tala um, “að finna hvatninguna til að gera eitthvað” eða “að hafa agann í að gera eitthvað”. Þannig notum við hvatningu í daglegu tali t.d á þennan hátt “Ég vil, þess vegna geri ég það” eða “Mér finnst þetta skemmtilegt, þess vegna geri ég þetta”. Á meðan við notum aga t.d á þennan máta “Ég þarf, þess vegna geri ég það” eða “Þetta er prógrammið mitt, þess vegna þarf ég að gera þetta”. En það þarf ekki að vera þannig að það sé annað hvort hvatning eða agi sem við stjórnumst af, oft er það hvatningin sem gerir agann.

Það eru til 3 tegundir af hvatningu.

Extrinsic motivation hvetur okkur til þess að gera ákveðna hluti til þess að fá einhverja umbun út úr því, t.d verðlaun, eða til þess að forðast það að vera refsað.

Intrinsic motivation hvetur þig til þess að gera eitthvað vegna þess að þú færð eitthvað persónlulegt út úr því, t.d vellíðan af því að það er athyglisvert og/eða skemmtilegt.

Fjölskyldan er einnig stór hvatning, t.d löngunin til þess að sjá fyrir fjölskyldu og ástvinum.

Þarna sjáum við að það er til hvatning sem hefur eiginleika sem svipar mjög til agans. Þannig að það er ekkert óeðlilegt við það að við séum stundum að tala um aga þegar það er í raun einhverskonar hvatning sem rekur okkur áfram. En við þurfum að hafa eitt á hreinu, skortur á hvatningu getur haft neikvæð áhrif alveg eins og að mikil hvatning er jákvæð.

Hvatning (motivation), eða réttara sagt skortur á hvatningu getur verið ein algengasta orsökin fyrir aðgerðaleysi og frestun í samfélaginu, eiginleiki sem oftast þykir vera neikvæður. Þetta er vegna þess að hvatningin fær þig til þess að vinna bara þegar þú vilt það. Þannig hættir fólk oft að vinna ákveðin verk þangað til það finnur hvatningu til þess að halda áfram. Þessi óstöðugleiki getur drepið niður hvatninguna og þar af leiðandi virkað sem andstæða og ýtt einstaklingum niður í djúpa dimma holu.

Agi (discipline), er síðan allt annað þótt það sé oft notað á sama hátt og það sé oft svipur með þessum tveim hlutum. Það er oft sagt að munurinn á milli þeirra sem ná árangri og þeim sem ekki gera það, sé agi. Þá er þetta ekki lengur spurning um stöðuga hvatningu, heldur viðvarandi aga til lengri tíma. Agi skilur á milli hegðunar og tilfinninga og gerir þær áhrifalausar fyrir það verkefni sem fyrir hendi er. Þeir sem samfélagið líta á sem farsæla eru ekki alltaf fullir af orku, hvatningu og adrenalíni, heldur halda þeir sig við langtímaáætlun, dag eftir dag, óháð því hvernig þeim líður.

Út frá þessu má gera ráð fyrir því að hvatning sé alltaf af hinu góða, sama hvort það sé hjá einstaklingi sem hefur mikinn aga eða lítinn. En hvað getum við gert til þess að fá eða hafa þennan aga? Margir virðast einfaldlega hafa þetta í sér og hafa vísindamenn tengt gen (KATNAL2) við sjálfsaga og varfærni. En hvað um alla hina sem eru einungis drifnir áfram af hvatningu og fá hugsanlega ekki nóg af henni?

Svarið er að búa til góðar venjur. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við þannig gerð að við virkum best í rútínu með ákveðnar venjur nánast á sjálfstýringu. Þannig er best að byrja á því að búa til ákveðna rútínu sem við höldum okkur síðan við. Prófaðu þessi 5 skref sem eru hér að neðan:

Skref 1: Finndu eitthvað frekar auðvelt sem þú vilt afreka.

Skref 2: Búðu til daglega rútínu til þess að ná þessu markmiði.

Skref 3: Verðlaunaðu þig í hvert skipti sem þú nærð að fylgja rútínunni.

Skref 4: Endurtaktu þangað til markmiðinu er náð.

Skref 5: Finndu annað markmið sem er örlítið stærra en hitt og endurtaktu frá skrefi 1.

Þarna erum við búin að blanda saman nokkrum mikilvægum þáttum, rútínu, markmiðasetningu og verðlaunum til þess að þjálfa upp meiri og betri aga. Þetta er eitthvað sem við öll getum gert ef við virkilega viljum temja okkur það.

Endilega prófaðu að gefa þér góðan tíma til þess að fara í gegn um þetta ferli og sjáðu hvort það hjálpi þér ekki.

Annars er hvatning og þetta málefni yfir höfuð svo ótrúlega áhugavert að ég gæti talað endalaust um það.

8qdts3gzozly.jpg
Guest User