Hvers vegna er mikilvægt að teygja fyrir og eftir æfingu?

Að teygja getur verið mikilvægur hluti af æfingarrútínunni okkar en hinsvegar eru alls ekki allir sem teygja fyrir æfingu. Ef þú ert ein af þeim manneskjum ertu hugsanlega að velta því fyrir þér núna hvort það sé mikilvægt að teygja bæði fyrir og eftir æfingar. Hér að neðan koma nokkrar ástæðu þess að það getur verið mikilvægt.

Þegar það kemur að því að teygja fyrir æfingar, þá er það gert af ákveðnum ástæðum. Algengasta ástæðan fyrir því að teygja eða nota nuddrúllur fyrir æfingu er að mýkja upp vöðvana og auka liðleika og hreyfigetu, einnig getur það dregið úr vöðvaþreytu ásamt öðrum óþægindum. Þetta samspil minnkar líkur á meiðslum á meðan á æfingunni stendur. Þú vilt að sjálfsögðu einbeita þér að því að teygja og nudda mest þá vöðvahópa sem þú ert að fara að nota mest í æfingunni. Ef þú ætlar til dæmis að fara út að hlaupa eða æfa fætur, þá viltu einbeita þér að því að teygja á bæði framan- og aftanverðum lærum, rassi og kálfum.

Eitt sem að margir hugsa ekki um þegar við teygjum fyrir æfingar, er púlsinn okkar. Flestir hugsa bara um að teygja á vöðvunum, enda er það aðal markmiðið. En það er um að gera að fá hreyfingu á vöðvana fyrst og ná púlsinum örlítið upp, bæði til þess að hita vöðvana áður en við byrjum að teygja á þeim og einnig til þess að koma blóðflæðinu af stað og dæla aðeins meira blóði í vöðvana á meðan þú teygir á þeim.

Ef þú ert undir mikilli tímapressu og hefur lítinn tíma í undirbúning fyrir æfingu, þá myndi ég ráðleggja þér að nýta tímann frekar í upphitunaræfingar heldur en teygjuæfingar, það eykur blóðflæði í vöðvana sem þú ætlar þér að nota, það ásamt hverskonar teygjum sem eru hluti af upphituninni geta hjálpað til við að mýkja upp vöðvana fyrir komandi erfiði.

Teygjur eftir æfingar, eða viðhaldsteygjur eru alveg jafn mikilvægar, ef ekki mikilvægari en teygjur fyrir æfingu. Helstu vöðvarnir sem notaðir eru á æfingu hafa mesta þörf fyrir teygjur. Að teygja eftir æfingu hjálpar t.d. vöðvunum að losa umfram mjólkursýru úr vöðvunum, sem getur hjálpað þér að minnka eymsli. Það hjálpar einnig vöðvunum að ná aftur eðlilegri lengd eftir æfingu.

Ástæður til þess að teygja:

  • Draga úr vöðvaspennu og auka slökun

  • Auka hreyfigetu

  • Forðast of mikið álag á vöðvana

  • Forðast álag á liðamót

  • Minnka hættu á bak vandamálum

  • Að undirbúa líkamann fyrir mikið erfiði

  • Auka blóðflæði

  • Draga úr eymslum í vöðvum

Ástæður til þess að forðast það að teygja:

  • Ef þú hefur fengið nýlegt beinbrot, tognum eða álagsmeiðsli

  • Ef þú átt í ákveðnum vandræðum með hreyfigetu

  • Ef þú ert með sýkingu eða bólgu í liðum eða beinum

  • Ef þú þjáist af beinþynningu

_methode_times_prod_web_bin_cd7bb278-755e-11e8-a95e-4d8f3c5d626c.jpg
Guest User