Mikilvægi svindlmáltíða

Byrjum á byrjuninni, hvað er “Svindlmáltíð”?

Við höfum örugglega skiptar skoðanir á þessu eins og flestu tengdu mataræði. En ég ætla að tala út frá mínu sjónarhorni, minni reynslu og út frá því hvað þær hafa gert fyrir mig í gegn um tíðina og þá er kannski best á að ég breyti nafninu á þeim, því fyrir mér er þetta alls ekki svindlmáltíð, heldur mikilvæg máltíð. Þannig finnst mér betra að kalla þetta eitthvað allt annað, t.d frjálsa máltíð, þar sem ég fæ að velja hvað þetta er og fyrir mér er ég ekki að svindla, tökum neikvæðnina úr orðinu.

Algengast er að fólk reyni að borða hollt og jafnvel eftir einhverskonar matarplani megnið af vikunni og hreyfi sig með, en verðlauni sig síðan einu sinni í viku með máltíð sem það virkilega langar í. Auðvitað eru til allskonar útfærslur af þessu, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum.

Auðvitað geta verið margir hlutir sem þarf að hafa í huga þegar maður tekur mataræðið sitt í gegn og þegar horft er á frjálsu máltíðina. Það sem hefur hentað mér hvað best í gegn um tíðina er að hafa tvær frjálsar máltíðir á viku, þá er ég ekki að tala um að það séu einu máltíðirnar þar sem ég ákveð hvað ég fæ mér, þetta snýst meira um magn, kaloríufjölda og hversu “óholl” máltíðin er, í raun fæ ég mér nákvæmlega það sem mig langar í, sama hvað það er.

Hvað gera frjálsu máltíðirnar fyrir mig?

Það hefur verið sannað að svona máltíð eykur metabólismann í líkamanum. Þetta veldur aukningu á leptíni, hormónum sem bera ábyrgð á að senda skilaboð um hungurtilfinningu til heilans, núllstillir hormón og hefur góð áhrif á líkamann. Það er hægt að tala um fullt af hlutum sem eru jákvæðir fyrir okkur, en ég hef meiri áhuga á því hvernig þessar máltíðir hafa góð áhrif á andlegu hliðina hjá mér og auðvelda mér að halda mig í rútínu.

Þannig hef ég valið að reyna að halda mig við tvo ákveðna daga, oftast eru það miðvikudagar og laugardagar sem hafa orðið fyrir valinu, Ástæðan er sú að mér finnst mjög gott að leyfa mér eitthvað virkilega gott um helgar þegar fjölskyldan er saman og frí daginn eftir, laugardagar - þessir klassísku nammidagar. Síðan hef ég haft miðvikudaga til þess að brjóta upp vikuna. Ef ég þarf að halda plani í 6 daga eru meiri líkur á að ég detti í gryfjuna að gúffa í mig öllu því góðgæti sem ég finn heima hjá mér. Aftur á móti ef það bíður mín góð máltíð í miðri viku og eg hef eitthvað að hlakka til, þá á ég auðveldara með að halda plani, einungis 3 dagar og síðan aftur 2 dagar á milli þessara frjálsu máltíða. Þetta getur líka létt virkilega undir andlegu hliðinni að hafa ákveðið frjálsræði sem gerir þetta auðveldara fyrir mann.

Það að hafa tvær svona máltíðir hefur líka sýnt sig og sannað hjá mér að ég á auðveldara með að halda mig við þessar máltíðir og líða vel. Ég finn að ég hef meiri stjórn þar sem það líður ekki eins langur tími á milli og þar með held ég mér betur á þessum dögum og fer ekki í algjöran nammidag þar sem ég borða alltof mikið af einhverju óhollu yfir daginn. Máltíðir geta nefnilega hjálpað til og gert gott fyrir þig, en það er stutt í að ofgera það og skemma góðu dagana sem þú áttir á undan með því að enda á heilum degi þar sem þú borðar allt sem þú ættir ekki að borða.

Síðan skiptir það að sjálfsögðu máli hvað þú velur þér að borða, auðvitað fæ ég mér pizzur og hamborgara og allt það sem mig langar í, en bara við það að hafa frjálsa máltíð tvisvar sinnum í viku finn ég að ég er oft að velja heilsusamlegri valkosti, t.d með því að borða meira af því sem ég borða almennt, eða bara með því að bæta við góðri sósu eða eitthvað smávægilegt sem gerir samt mikið fyrir mig.

Munum að mataræðið snýst ekki um að banna sér að borða, heldur að velja betri kostina.

topimage-classic-hamburger-2019m04-800x534.jpg
Guest User