Að þjálfa Fitnesskeppendur

Þegar kemur að því að þjálfa einstaklinga sem hafa hug á að keppa í fitness eða vaxtarrækt, er í mörg horn að líta. Þetta getur verið langt og flókið ferli og þurfa allir aðilar að vera tilbúnir til þess að takast á við verkefnið af heilum hug. Margar vikur, mánuðir og jafnvel ár geta legið á bakvið undirbúninginn til þess að sýna afraksturinn á einum degi. Svona undirbúningur getur verið mjög langur og flókinn og þess vegna ætla ég ekki að fara ítarlega í neinar aðferðir heldur einungis stikla á stóru í gegn um þetta. Ef það á að fara ítarlega í gegn um ferlið og skrifa um öll fræðin á bakvið það, þá væri þetta efni í heila bók.

Þegar verðandi keppandi hefur samband við þig er fyrsta skrefið að hittast og fara yfir málin. Ef þið þekkist ekki nú þegar, þá er mjög mikilvægt að þið náið vel saman strax í upphafi. Það þarf að meta líkamsástand keppandans og út frá því er hægt að setja raunhæf markmið, m.a. hversu langan tíma þarf í undirbúning, hvaða mót á að stefna á og í hvaða flokki. Þarna er mjög mikilvægt að þjálfarinn sé 100% hreinskilinn varðandi öll atriði.

Þegar þessi atriðið eru komin á hreint og aðilar hafa náð samkomulagi sín á milli byrjar þjálfunin, sama í hvaða formi hún er. Þarna þarf þjálfarinn að ákveða hvaða þætti þarf að leggja mestar áherslur á, hvaða vöðvahópar eru veikastir og hverjir eru sterkastir, hvernig er vöðvasamræmið hjá einstaklingnum, fituprósenta og margt fleira. Út frá þessum og fleiri þáttum útbýr hann æfingaplan og matarplan fyrir keppandann til að fylgja eftir. Þessi plön geta verið á ýmsa vegu, margbreytileg og flókin og í raun engin ein rétt leið. Það er því mikilvægt að þjálfarinn viti hvað hann er að gera því þarna er keppandinn að leggja allt sitt traust á hann.

Um leið og stífar æfingar eru hafnar og mataræðið er tekið föstum tökum, þarf að fygjast vel með einstaklingnum, mæla og meta árangur og tryggja að plönin séu að skila þeim árangri sem ætlast er til af þeim. Þarna fer oft smá tími í að aðlaga plönin út frá eistaklingnum og eru því oft reglulegar mælingar til þess að tryggja það að allt sé á réttri leið. Í gegn um allt ferlið er síðan mjög mikilvægt að fylgst sé vel með einstaklingnum, reglulegar mælingar, athuga reglulega um líðan og hvernig allt gengur. Að keppa í þessari íþrótt getur verið virkilega erfitt, bæði líkamlega og andlega og þess vegna er mikilvægt fyrir þjálfarann að vera meðvitaður um það að vera keppandanum innan handar ef eitthvað kemur upp á.

Ef þú ert kominn á þann stað að vera keppnisþjálfari er mjög líklegt að þú sért með mikla reynslu af þjálfun og með góð sambönd innan fagsins. Þú ættir því oft að geta verið í þeirri aðstöðu að aðstoða keppendur við að fá afslætti og jafnvel sponsa af þeim vörum og þjónustu sem þarf til þess að keppa. Þetta getur oft verið dýrt ferli og því miður eru ekki miklir peningar í boði fyrir að keppa.

Huga þarf að ýmsum hlutum áður en að mótsdag kemur, það þarf að panta brúnkuliti og tíma í spraytan eða hvernig sem aðilinn vill fá litinn á sig, panta tíma í hárgreiðslu, förðun, það þarf að kaupa keppnisfatnað, æfa pósur og jafnvel fara á námskeið og margt fleira. Þarna á þjálfarinn að geta hjálpað til, mælt með ákveðnum hlutum og gefið góð ráð ef keppandinn þekkir ekki nógu vel til.

Síðustu dagarnir fyrir mót eru virkilega mikilvægir fyrir flesta. Þarna snýst allt um það að hitta á rétta formið á mótsdag. Margir eru í vatnslosun og kolvetnahleðslu, sem eru alltof flókin vísindi til þess að við séum að fara nánar út í það hérna, og einnig eru allar líkur á því að keppandinn sé orðinn virkilega þreyttur og jafnvel stressið farið að segja til sín. Þarna getur þjálfarinn áætlað að vera kominn með keppendur í sólahrings gjörgæsluvakt alveg fram að móti. Þarna fer öll áherslan á að keppandanum líði vel, sé tilbúinn og að allt sé í toppstandi á mótsdag. Þá mun lífsreynslan verða góð og allir ganga sáttir frá mótinu.

Strax eftir mót er gott að eiga smá spjall, fara yfir hlutina, hvað gekk vel og hvað hefði mátt ganga betur. Hvaða markmið eru framundan og annaðhvort að vera með tilbúið plan eða að setja upp plan fljótt til þess að keppandinn sé ekki í lausu lofti eftir mót. Það eru mikil viðbrigði að fara úr stífri keppnisrútínu í það að gera ekki neitt og það getur haft stórar andlegar afleiðingar fyrir einstaklingana. En aftur á móti, ef að rétt er farið að hlutunum kemur keppandinn niður af sviðinu fullur af eldmóð og tilbúinn í næsta verkefni.

bikini fitness.jpg
Guest User