Hvort er betra að hafa ræktarfélaga eða ekki?

Þetta er spurning sem margir virðast velta fyrir sér. Ætti ég að hafa æfingarfélaga? Einhvern sem mætir með mér og fer með mér í gegn um þær æfingar sem á að taka.

Sumir standa fast á því að þú eigir að fá þér æfingarfélaga og finnast sambandið á milli sín og æfingarfélagans algjörlega heilagt.

Aðrir munu segja þér að forðast það eins og heitan eldinn.

Auðvitað er lífsreynsla fólks misjöfn af þessu og einnig er fólk almennt bara ólíkt, sem betur fer. Þannig getur sumum fundist betra að hafa einhvern með sér á æfingum á meðan aðrir vilja heldur vera einir með sjálfum sér. En hvernig getur þú vitað hvort að það hjálpi þér að hafa ræktarfélaga, eða hvort að það geri þér bara erfiðara fyrir?

Lítum á nokkra hluti sem eru jákvæðir varðandi það að hafa ræktarfélaga með sér á æfingum.

  • Það getur reynst auðveldara að halda sér í rútínu og erfiðara að sleppa því að mæta þar sem að ræktarfélagarnir stóla á hvorn annan þegar kemur að því að mæta á æfingar.

  • Það getur verið skemmtilegra og auðveldara að hvíla á milli setta þegar þörf er á löngum pásum.

  • Þú hefur alltaf einvhern til þess að “spotta” þig í æfingum. Þetta er eitt af því sem mér finnst hvað erfiðast þegar ég lyfti einn, að þurfa að horfa í kring um mig og jafnvel trufla einhvern sem er sjalfur að æfa til þess að fá aðstoð.

  • Ræktarfélaginn getur hvatt þig áfram þegar þú átt slæman dag, það eitt getur breytt lélegri æfingu yfir í góða á skömmum tíma.

  • Það hjálpar alltaf að æfa með einhverjum sem er reynslumeiri eða betri en maður sjálfur í einhverjum æfingum. Það ýtir manni áfram í að reyna að halda í við hann og gera ennþá betur en maður myndi annars gera.

  • Fjölbreytni í æfingum, þið getið fylgt prógrömmum frá hvor öðrum sem gerir það að verkum að þið hafir meira úrval æfinga og hugsanlega ólíkar æfingaraðferðir. Þannig lærum við nýja hluti og bætum okkur.

  • Sama hversu reynslumikill og góður maður er í æfingunum getur alltaf verið gott að hafa einhvern sem hefur auga með manni og getur bent manni á ef tæknin eða líkamsbeytingin er ekki alveg eins og hún á að vera. Jákvæð gagnrýni er alltaf góð.

Það geta samt líka verið ákveðnir hlutir sem gera það að verkum að maður forðast það að hafa æfingarfélaga með sér í ræktinni.

Hérna að neðan eru nokkrir hlutir sem er ekki eins jákvæðir og hlutirnir á listanum að ofan.

  • Stundum getur æfingin tekið alltof langan tíma - helmingi fleira fólk = helmingi fleiri sett = helmingi fleiri endurtekningar…..helmingi meiri tími. Það þarf ekki alltaf að vera þannig en, þegar maður hefur stuttan tíma eða mikið að gera þann daginn, þá getur þetta skipt máli.

  •  Misjöfn markmið. Stundum passa markmiðin ykkar ekki alveg saman og þá getur verið erfitt að framkvæma nákvæmlega sömu æfingarnar eða einfaldlega að æfa á sama hátt. Þannig mynduð þið hugsanlega mæta saman á æfingu en samt æfa í sitthvoru lagi.

  • Ef þú lendir á æfingarfélaga sem er kannski ekki alveg að nenna þessu jafn mikið og þú, þá getur það haft stór áhrif á árangurinn þinn.

  • Þegar við erum í skemmtilegum félagsskap eigum við það til að tala mikið, stundum of mikið. Ef við lendum í því að eyða of miklum tíma í að spjalla, þá verða allar pásur of langar og við fáum ekki það út úr æfingunni sem við erum að sækjast eftir. Ef þú getur talað á meðan þú ert að lyfta, þá ertu líklegast ekki að reyna nógu mikið á þig. Allavega hef ég ekki séð neinn taka 10 endurtekningar á meðan hann frussar út úr sér nýjasta skrifstofuslúðrinu ná hámarksárangri í þeirri æfingu.

  • Stundum erum við líka bara of ólík, t.d getur getustigsmunurinn verið það mikill að það getur verið alltof mikið vesen að taka lóð af og bæta á stangir á milli setta. Þannig fer alltof langur tími oft í það og það getur beinlínis orðið pínu þreytandi. Það er nefnilega gott að geta haft gott flæði í gegn um æfingarnar til þess að við séum ekki að eyða tímanum of mikið í óþarfa hluti.

Niðurstaða

Það fer allt eftir því að hverju þú ert að leita. Viltu mæta í ræktina til þess að hafa gaman eða til þess að ná árangri? Líklegast bæði, það er allavega besta blandan. Þá þarftu að tryggja að þú getir haft einhvern með þér sem þú þekkir og finnst skemmtilegur en er líka með hugarfarið í að halda æfingunni gangandi og er tilbúinn til að taka á því.

Hugsanlega væri gott ráð að finna sér einkaþjálfara, þar færðu þekkingu, árangur og félagsskap á einum og sama staðnum. Endilega veltu þessu fyrir þér, það er undir þér komið hvernig æfingin verður.

gymbuddy.jpeg
Guest User