Finndu þá hreyfingu sem þér finnst gaman að gera

Fullt af fólki æfir reglulega, jafnvel daglega, við hlaupum, lyftum, förum í fjallgöngur, stundum yoga og margt, margt fleira, en þið sem hafið gert líkamsrækt að lífsstíl, verið hreinskilin: Er líkamsræktin eitthvað sem þú elskar að gera? Eða stundar þú hana af “íllri nauðsyn”? Kannski eitthvað þarna mitt á milli? En skiptir það þig máli að þú hafir gaman af að æfa? Já!

Afhverju er það mikilvgt fyrir okkur að hafa gaman af líkamsræktinni sem við stundum?

Sem fullorðnir einstaklingar þurfum við reglulega að gera hluti sem okkur líkar kannski bara alls ekkert við, hlutir sem okkur finnst ekki gaman að gera en samt sem áður þá eru þetta hlutir sem við þurfum að gera. Sum okkar hafa ekki gaman af vinnunni sem við erum í, að þrífa íbúðina okkar eða að borga reikninga.

Ég persónulega þoli ekki að brjóta saman þvott og til þess að ég klári það frá, þá þarf ég virkilega að peppa mig í gang. Hafa réttu tónlistina á og nánast dansa í gegn um það. En ég geri það engu að síður. Það er alltaf erfiðast að koma sér í verkið og byrja.

Við getum flest öll verið sammála um það að lífið er of stutt til þess að gera of mikið af því sem okkur finnst leiðinlegt. Reynum frekar að gera meira af því sem okkur finnst skemmtilegt….og þegar það kemur að æfingum og líkamsrækt, þá þurfum við að hafa gaman að því til þess að halda áfram að mæta.

Já, skemmtileg líkamsrækt er sko til!

Að stunda einhverskonar hreyfingu sem maður hatar að gera (eða finnst allavega ekki gaman) er ekki góð leið að árangri. Hversu oft höfum við byrjað á einhverju bara til þess að gefa það upp á bátinn örfáum vikum seinna? Ég veit að eg hef gert það alltof oft.

Þegar maður gerir æfingar sem manni finnast virkilega skemmtilegar i framkvæmd er maður miklu áhugasamari og viljugri til þess að halda áfram að gera þær. Maður sér þær sem jákvæðan hlut af lífi manns og hlakkar jafnvel til að mæta aftur.

Þannig að ekki velja æfingar eða hreyfingu sem þú heldur að þú eigir að gera bara vegna þess að þær eru auðveldar, vinsælar eða þæginlegar.

Kannski ferðu út að hlaupa til þess að brenna kaloríum en þér finnst virkilega leiðinlegt að hlaupa. Eða þá að þú ferð í spinning bara af því að það er eini tíminn í tímatöflunni sem þú getur mætt í. Eða þá að þú ferð í yoga af því að þú þorir ekki að prófa eitthvað annað.

Finndu eitthvað sem þú elskar að gera!

Prufaðu þig áfram, “gúglaðu”, skoðaðu youtube og pinterest til að fá hugmyndir. Prufaðu nýja hluti í hverfinu þínu, kauptu þér ræktarkort, fáðu þér einkaþjálfara, haltu áfram að prófa nýja hluti þangað til að þú finnur að eitthvað smellur.

Um að gera að prófa hluti sem eru með mikið æfingarálag og eins eitthvað með minna álagi, t.d crossfit einn daginn en yoga þann næsta. Finndu hvað virkar fyrir þig og hvar þér líður best.

Þegar þú elskar það sem þú gerir:

  • Þá ertu líklegri til þess að mæta aftur og haldast í rútínu í staðinn fyrir að finna snooze takkann í fjórða skiptið þann morguninn.

  • Þú ferð að byrja að hlakka til að mæta á æfingu og setur það í forgang.

  • Það verður að einhverju jákvæðu í lífi þínu.

  • Þetta verður “þinn tími” dagsins og eitthvað sem þú getur einbeitt þér að bara fyrir þig.

Lífið er alltof stutt til þess að gera bara hluti sem við viljum ekki eða nennum ekki að gera.

Veldu það sem virkar fyrir þig og bæði líkaminn og sálin munu þakka þér fyrir það.

boring+workout.jpg
Guest User