Er skemmtilegt að starfa sem einkaþjálfari?

Þegar ég byrjaði að mennta mig í að verða einkaþjálfari fyrir mörgum árum síðan, var algengasta spurningin sem ég fékk:

-     Hvers vegna viltu verða einkaþjálfari?
Í byrjun var svarið mitt yfirleitt það að ég væri að þessu fyrir sjálfan mig, mig langaði að fræðast meira þar sem að ég hafði brennandi áhuga á því að æfa?

Seinna meir, þegar ég hafði farið í gegn um námið og fengið smá innsýn inn í starfið áttaði ég mig á því að það voru fleiri ástæður fyrir mig til þess að halda áfram og gera þetta að framtíðarstarfinu mínu.

 -     Ég hafði brennandi áhuga á að aðstoða aðrar manneskjur og sérstaklega þar sem að ég hafði endalausan áhuga á að lesa mér til um allt sem tengdist líkamsrækt og íþróttum yfir höfuð.

 Einnig hljómaði það mjög ”cool” í mínum eyrum að vera einkaþjálfari.

Fyrst og fremst þarf maður samt að átta sig á því að sem einkaþjálfari starfar maður með manneskjum, einstaklingum. Og einkaþjálfun er þjónusta og þú ert því í þjónustustarfi.
Það þarf maður að hafa á hreinu og þá er það besta við starfið:

 -Að fá að hitta og vinna með skemmtilegu og metnaðarfullu fólki sem þú getur aðstoðað að ná sínum markmiðum á skemmtilegan hátt.

 Gallinn er samt sá að maður þarf að fá laun til að lifa og það getur verið erfitt að komast af stað og ekki eru allir einstaklingar auðveldir að vinna með. En sem einkaþjálfari getur maður þurft að taka að sér alla þá sem hægt er í byrjun starfsferilsins til þess að fá reynslu og til þess að fá ”bisnessinn” til að byrja að rúlla. Lykillinn er að a) hafa fleiri viðskiptavini sem er gaman að starfa með heldur en öfugt og b) að læra að umgangast allar týpur af manneskjum. En síðan er þá alltaf möguleiki á að þú missir einhverja kúnna í ferlinu. 

 -Þú ert að vinna í mjög frjálsu umhverfi og átt mjög auðvelt með að stjórna t.d vinnutímunum þínum, en höfum í huga að álagstímar hjá einkaþjálfurum eru oftast þeir tímar sem aðrir eru í fríi, annaðhvort fyrir eða þegar þeir eru búnir í vinnu eða skóla.

-Þú ert að vinna með eitthvað sem þú hefur virkilega mikinn áhuga á og elskar að gera. Það kemur ekkert í staðinn fyrir það.

-Þú átt auðvelt með að stunda þínar æfingar af kappi. Þannig getur þú annað hvort planað tímana þína eða þegar það kemur smá gloppa í dagskránna, þá ertu nú þegar í líkamsræktarsalnum og engin ástæða til þess að æfa ekki.


-Þú ert dags daglega í mjög þæginlegum fötum, stílhrein íþróttaföt og það hjálpar til að losna við valkvíðann á morgnana um það hvernig föt eigi að fara í.

-Tímakaup er frekar hátt í þessu fagi og fyrir þá sem eru duglegir og góðir í sínu starfi (hugsanlega spilar smá heppni inn í stundum) þá geta launakjör verið mjög góð.

-Þegar þú hefur skemmtilegan viðskiptavin fyrir framan þig líður þér varla eins og þú sért í vinnunni, það þýðir samt ekki að þú eigir ekki að taka það alvarlega. Þú ert háður þínum viðskiptavinum og þeir eru háðir þér, og í besta falli er það ”win-win aðstæður”.


Að vera einkaþjálfari hefur margar jákvæðar hliðar og getur á stundum verið heimsins besta starf.
   

Síðan er það líka bara svo ”cool”.

Guest User