Er ég í megrun eða er ég bara að borða hollt?

Það er mjög algengt að fólk tali um að fara í megrun eða að það sé að notast við hina og þessa megrunarkúra. Misjafnar ástæður liggja að baki því, sumar ástæðurnar eru til að grennast, aðrar til að ná einhverskonar árangurstengdum markmiðum og sumir vilja einfaldlega bara líða betur. Sama hver ástæðan er, þá er hún líklegast alltaf framkvæmd til þess að reyna að ná fram einhverskonar betri líðan. Tíminn leiðir svo í ljós hvort að það takist eða ekki.

Sjálfur hef ég prófað ansi margt þegar kemur að því að prófa ýmis mataræði, ég hef fastað, verið á low carb og ketó, jafnvel verið í því að reyna að borða eins mikið og ég get yfir daginn og innbyrða þannig svakalegt magn af kaloríum. Á sínum tíma mældi ég árangurinn oftast eftir árangri samkvæmt mælingum, þyngd, fituprósentu og ummálsmælingum.

En hvað er það sem virkar og hvernig met ég það í dag?

Ef aðferðirnar sem ég tel upp að ofan og fullt, fullt af fleirum eru framkvæmdar rétt, þá virka þær líklegast allar, allavega að einhverju leyti. En það sem skiptir mig orðið meira máli í dag er það hvernig mér líður þegar ég tek mataræðið mitt í gegn. Þannig getur sumum liðið rosalega vel á ketó á meðan það fer alls ekki vel í aðra, oft tengist það því hvað við gerum yfir daginn. Stundum við hreyfingu yfir daginn og þá hvernig hreyfingu? Hvernig orkugjafar nýtast okkur best? Ef mér líður vel og ég get æft og haft orku til þess að sinna vinnu og að leika við börnin mín yfir daginn, þá er mataræðið að skila sínu. Oftast fylgja þá aðrir hlutir með, minna stress, betra jafnvægi og þá reynist það oft auðveldara að ná þeim líkamlegu markmiðum sem við setjum okkur. Ef andlega hliðin er í lagi og okkur líður vel, þá er auðveldara fyrir okkur að ná öðrum markmiðum, líkaminn fylgir yfirleitt því hvernig okkur líður hverju sinni.

Finnum jafnvægi í mataræðinu okkar.

Þetta er hlutur sem skiptir öllu máli fyrir okkar líðan. Það er virkilega erfitt fyrir alla að borða bara það sem þarf að borða til þess að ná árangri, við verðum að geta líka borðað það sem við viljum borða til þess að ná árangri. Þannig getur verið ansi algengt að þeir sem ætla að ná skjótum árangri og gera allt sem til þarf til þess að ná honum, gefast upp eftir skamman tíma og lenda jafnvel á verri stað en áður. Þannig eru öfgar almennt séð ekki besta leiðin.

Það sem við þurfum að gera er að borða hollan mat í því magni sem hentar og maturinn þarf að bragðast vel, enginn þolir til lengri tíma að neyða ofan í sig mat sem honum finnst ekki góður. Ef okkur hlakkar til að borða vegna bragðsins, þá verður þetta lítið vandamál.

Stærsta vandamálið mitt er að koma ofan í mig nægu grænmeti, ég einfaldlega er eins og smákrakki þegar kemur að því að borða eitthvað grænt! Soðið, slepjulegt brokkolí fer sko ekki inn fyrir mínar varir. Aftur á móti finnst mér brokkolí með smá olíu, salt og pipar, sett í ofn þangað til það verður dökkt og stökkt alveg ótrúlega gott. Svona getum við oftast fundið leið til þess að velja hollari kostinn og finnast hann bragðgóður engu að síður.

Losum okkur frá trendum og finnum virkilega það sem hentar okkur sjálfum.

Það hefur borið mikið á því í samfélaginu undanfarið að fólk virðist skipta sér mikið af því hvað aðrir eru að gera eða eiga að gera. Að mínu mati skiptir það ekki máli hvað þetta er kallað, megrun, kúr, mataræði, lífssílsbreyting eða hvað það nú er. Það liggur ástæða þar að baki og oftast er hún tengd því að manneskjunni vilji líða betur eða jafnvel heilsufarslegar ástæður sem skipta miklu máli. Þótt að ein aðferð henti þér, þá þýðir það ekki að hún henti næsta manni. Við þurfum öll að finna út úr því hvað hentar okkur best.

Ef við erum í einhverjum vafa varðandi næringuna okkar, leitum þá til sérfræðinga sem geta hjálpað okkur. Það er fullt af færu fólki þarna úti sem getur aðstoðað þig við að finna hvað hentar þér best.

Healthy-Food-Doesnt-Have-To-Be-Expensive.jpg
Guest User