Að æfa gegn þunglyndi og kvíða - Covid-19 útgáfan

Núna hefur undirritaður setið í sóttkví síðustu 5 sólahringana og ég viðurkenni fúslega að ég finn vel fyrir því, samt eru þetta bara 5 dagar - hugsa sér alla þá sem hafa þurft að lifa við þetta í kannski 3 mánuði. Ég er ekki að segja að þetta sé eitt það erfiðasta sem ég hef gert, en mikið var þetta samt leiðinlegt. Að vera inni allan daginn og geta ekki hitt sína nánustu og haldið uppi daglegri rútínu virðist hafa meiri áhrif á mig en ég hélt.

Og þá er það stóra spurningin, hvað er það sem gerir það að verkum að maður finni fyrir depurð eða kvíðatilfinningu í maganaum bara af því að þurfa að vera heima og liggja yfir Netflix eða vinna í tölvunni í nokkra daga? Hlutir sem maður gerir daglega, bara í minna magni.

Ég er nokkuð viss um að þetta sé misjafnt eftir einstaklingum, hvað er einstaklingurinn vanur að gera á daginn og hvað lætur honum líða vel. En þegar kemur að mér, þá veit ég að það skiptir máli hvort ég sé að æfa reglubundið eða ekki.

Að æfa gegn þunglyndi og/eða kvíða.

Það er margt óskýrt varðandi sambandið á milli þess að æfa líkamsrækt eða stunda einhverskonar hreyfingu og þunglyndis og/eða kvíða. Margt bendir þó til þess að hreyfingin geti minnkað einkennin og jafnvel hjálpað til við að halda þeim niðri þegar einstaklingum líður vel. Nú þegar eru töluverðar vísbendingar um að hreyfing almennt geti hjálpað til þegar einstaklingar finna fyrir depurð, kvíða eða stressi. Árið 2016 var gerð risastór rannsókn á þessu þar sem meira en 1 milljón einstaklingar tóku þátt, sýndi hún að hreyfing og æfingar geti dregið úr hættu á þunglyndi. Einnig að það geti dregið úr einkennum hjá þeim sem nú þegar hafa fengið greiningu.

Flestar rannsóknir undanfarinna ára snúa þó að úthaldsæfingum eins og skokki og hlaupi.

Færri rannsóknir hafa verið gerðar út frá styrktaræfingum, hversu miklir kostir fylgja þeim, ef einhverjir gagnvart andlegri heilsu fólks. Margar þeirra benda þó til þess að styrktarþjálfun geti hjálpað fólki að vera með minni kvíðatilfinningu og minna stressað. Hérna er ein þeirra frá árinu 2017.

Með þessum pistli er ég alls ekki að segja fólki að afbóka sálfræðitíma og kaupa sér ræktarkort eða hlaupaskó, ég mæli frekar með því að halda tímanum og fjárfesta samt líka í heilsunni, það skemmir allavega ekki fyrir, sérstaklega ef það er gert í góðum félagsskap.

treatment-for-depression-myrtleford.jpg
Guest User