Að byrja aftur að æfa eftir sumarfrí

Það er mjög algengt á þessum árstíma að fólk sé ekki í sinni daglegu rútínu, það er í sumarfríi, mikið á ferðalagi, eldar kannski minna heima fyrir og æfir ekki eins mikið. Það er því fullkomlega eðlilegt að við séum pínulítið OFF þegar við snúum til baka og ætlum að komast aftur í gömlu rútínuna. Núna fer sá tími að bresta á, stærsta ferðahelgi ársins er í gangi og margir sem koma til baka eftir hana og fara að huga að því að koma sér í gang, styttist í að skólarnir fari að byrja aftur og sumarfríin klárist. En vonandi eigum við nú einhverjar sumarvikur eftir áður en að því kemur. Það er þó ekkert að því að fara að huga að því hvernig við ætlum að fara að því að detta aftur í gömlu rútínuna, það getur verið erfiðara en að segja það.

En við skulum tala um nokkra hluti sem gætu hjálpað þér að komast fyrr í góða rútínu.

Ekki flýta þér of mikið af stað, það er alveg óþarfi að hoppa beint upp á baðvigtina um leið og þú kemur heim. Þótt að þú hafir borðað öðruvísi í eina eða tvær vikur, þá er það ekki að fara að hafa það mikil áhrif á líkamann þinn þegar við lítum á heildarmyndina. Einnig getur líkaminn virkilega þurft á hvíldartímum að halda sem við vanmetum oft. Vonandi skilar fríið sér á þann hátt að þú finnir að líkaminn sé endurnærður eftir fríið, þannig getur þetta verið mjög jákvætt.

Við vitum öll hvað næring og hvíld hefur mikil áhrif á okkur og hversu mikla orku við höfum. En það sem færri vita er að þegar við breytum matarrútínunni og förum að borða utan þeirra tíma sem við erum vön að borða, þá getur það einnig haft stórvægileg áhrif á okkur. Því fyrr sem þú kemst í þitt eðlilega horf varðandi mataræði og tímasetningar á máltíðum, því fyrr fer þér að líða betur.

Það er í eðli okkar að mæta á fyrstu æfingu og ætla að halda áfram þaðan sem frá var horfið og gefa allt sem við getum í æfinguna, ég mæli þó hinsvegar með því að fara rólega af stað og byggja upp erfiðleikastigið jafnt og þétt fyrstu dagana. Farðu í æfingarnar á þínum hraða og þinni getu og hlustaðu á líkamann, það mun hjálpa þér að koma í veg fyrir meiðsli og einnig hugsanlega gera það að verkum að þú hlakkir til að mæta aftur.

Merktu æfingartímana þína inn á dagatal og vertu með skipulagða tíma fyrir hreyfinguna. Þegar maður kemur heim úr fríi er margt sem þarf að huga að, vinnan, heimilið, fjölskyldan og gæludýr svo eitthvað sé nefnt. Að hreyfa sig og æfa reglulega gefur manni aukna orku til þess að sinna öðrum hlutum og maður sefur einnig betur. Ekki sleppa æfingum útaf tímaleysi, skipulegðu þig frekar betur og nýttu tímann til að fá aukna orku til þess að framkvæma hlutina.

Settu þér lítil og raunhæf markmið, stærstu árangurssögurnar sem við sjáum koma frá mörgum litlum markmiðum sem er búið að þjappa saman í eitt stórt markmið. Litlu hlutirnir eru fljótir að verða stórir þegar þeir eru sameinaðir.

stil-479024-unsplashsq-1024x972.jpg
Guest User