Borðaðir þú of mikið í dag? - Ekki borða of lítið á morgun!

Að vigta mat og þannig telja hitaeiningar og/eða borða eftir hlutföllum (macros) getur verið góð leið til þess að missa fitu á áhrifaríkan hátt á sama tíma og við höldum í vöðvamassann sem við erum búin að leggja svo hart að okkur við að ná. Einnig hjálpar það til við að verða meðvitaðari um það hvaða fæðu við erum að velja okkur.

Að notast við þessa aðferð hefur marga góða kosti og gefur þér tækifæri á að ná þér í reynslu og læra á líkamann þinn þegar kemur að mataræði. En þegar það kemur að því að “telja” ofan í sig, þá er gott að muna að það er til örugg aðferð og það er líka til ekki-eins-örugg aðferð. Þess vegna getur verið gott að hafa næringarfræðing, þjálfara eða einhvern sem hefur þekkingu á að leiðbeina þér í gegn um ferlið innan handar.

Að vigta matinn getur stundum leitt til þess að einstaklingar verði öfgafullir þegar kemur að mataræði. T.d. með því að borða of langt undir orkuþörf eða með því að brenna fleiri hitaeiningum á æfingum en þörf er á. Þetta hugarfar eykur líkurnar á þreytu, ofþjálfun, meiðslum eða einfaldlega að fólk gefist upp.

Þess vegna er virkilega mikilvægt að leita aðstoðar hjá einhverjum sem kann sitt fag og getur hjálpað þér að ná tilætluðum árangri á sama tíma og líkaminn er fullur af orku og styrk.

Hvort sem það eru félagslegar aðstæður, eða þú lest vitlaust á innihaldslýsingu eða finnur einfaldlega fyrir meiri hungurtilfinningu, þá geta komið dagar þar sem við borðum meira en við ætluðum okkur að gera yfir daginn.

Ég skil það 100% - þegar fólk er VIRKILEGA peppað í að ná ákveðnu markmiði og er tilbúið til þess að gera ALLT sem það getur til þess að ná því fyrr, þá gerist það að einstaklingar borða minna daginn eftir til þess að “jafna út” kaloríur og macros.

Þvert á móti því sem flestir halda, þá er líklegra að þetta skemmi fyrir heldur en að gera gott.

Ég ráðlegg því flestum að halda sínu striki þrátt fyrir smá hliðarskref. Eftirfarandi eru nokkrar ástæður hvers vegna.

Þetta getur orðið að vana.

Þegar þú færð “lánaðar” macros frá einum degi til annars, getur það orðið að vana sem á endanum tekur burtu mikilvæga þætti þegar það kemur að mataræðinu eins og t.d…..

  • að halda góðri rútínu

  • að finna að þú sért með næga orku yfir daginn

  • að þú standir þig vel á æfingum og sért með góða og hraða endurheimt

Að borða langt yfir orkuþörf getur orðið að vana.

Á þeim dögum sem þú borðar of lítið er líklegt að þú finnir fyrir meiri hungurtilfinningu. Það getur leitt til þess að þú borðir yfir mörkunum aftur. Þetta getur breytt einum degi af því að borða of mikið í rússíbanaferð í að borða of mikið og of lítið til skiptis. Fljótlegasta leiðin til þess að komast aftur í rétta rútínu er að byrja strax daginn eftir að borða samkvæmt markmiðum.

Það er aldrei í lagi að refsa sér!

Að takmarka næringuna ennþá meira þegar þú ert nú þegar að borða undir orkuþörf gagnast þér aldrei, hvorki á líkama né sál. Til þess að ná þínum markmiðum þarf ákvörðunin að koma frá þér út frá væntumþykju og virðingu við líkamann þinn, ekki útaf sektarkennd vegna undanfarinna máltíða.

Jafnvel einstaklingar sem hafa borðað eftir þessu kerfi í mörg ár eiga slæma daga.

Flest af besta íþróttafólki heims á slæmar æfingar inn á milli.

Það sem þetta fólk á sameiginlegt og hvers vegna það nær árangri til langs tíma, er geta þeirra í að halda áfram. Það lætur fortíðina vera þar sem hún á að vera - í fortíðinni!

Food-Scale-1024x693.jpg
Guest User