Get ég borðað meira ef ég borða bara plöntufæði?

Spurning:
Hæ! Ég hef eina spurning handa ykkur þar sem að ég er byrjuð að lesa mikið um plöntufæði, mikið af greinum sem segja að kaloríur úr plöntufæði eru ekki “jafnar” kaloríum sem koma frá dýrum. Þannig að maður ætti að geta borðað næstum því eins mikið og maður getur á þessu mataræði án þess að þyngjast eða fitna (þá er ég ekki að tala um ruslfæði), hvað segið þið? Ég veit að kaloríur úr grænmetisfæði inihalda oft lítið af kaloríum, en segjum sem svo að manneskja nái sinni daglegu orkuþörf á plöntufæði og önnur manneskja með því að borða dýraafurðir. Getur manneskjan á plöntufæðinu frekar farið yfir þörfina án þess að fitna heldur en hin manneskjan?

Svar:
Þetta er alls ekki óalgeng spurning og það eru örugglega fleiri en þú að spá í þetta 🙂

Til þess að gera langt svar stutt, þá er svarið einfaldlega nei. Það er aldrei hægt að borða fleiri hitaeiningar á ákveðnu mataræði heldur en öðru. Ein hitaeining = ein hitaeining. Að borða yfir orkuþörf leiðir til þyngdaraukningar og að borða undir henni leiðir til þess að maður fer niður í þyngd. Aftur á móti er margt í plöntufæði sem er lágt í kaloríum og maður getur því borðað það í miklu magni (rúmmáli) til þess að verða saddur. Almennt er mjög mikilvægt, og einnig með grænmetisfæði, að maður borði orkuríkan mat án þess að borða ruslfæði en kaloríur finnum við í fitu, kolvetnum og próteinum óháð því úr hvaða fæðu við fáum þær.

Segjum sem dæmi að dagleg orkuþörf þín sé 2500 hitaeiningar á dag og þú borðar 3500 hitaeiningar, þá skiptir það ekki máli hvort þú borðar plöntufæði eða dýraafurðir, báðar fæðutegundirnar munu leiða til þyngdaraukningar á endanum.
Ef það væri rétt sem þú hefur lesið í þessum greinum, þá ætti maður jafnvel að geta borðað meira ruslfæði, svo framarlega sem það sé ”vegan” og ekki gert úr neinum dýraafurðum. Hitaeiningar sem við fáum úr ”vegan ruslfæði” eru engu að síður sömu hitaeiningar og við fáum úr öðru veganfæði. Eini munurinn er oftast magnið af orku/rúmmál í ruslfæði (og hugsanlega smá vöntun á næringarefnum).
Margir af þeim sem ekki borða ruslfæði almennt, eiga auðveldara með að stjórna þyngdinni sinni, óháð hvort þeir borða plöntufæði eða ekki.

Það finnast margir kostir við að borða plöntufæði, en maður getur ekki borðað ótakmarkað magn af mat. En einn athyglisverður punktur sem vert er að minnast á, er að við þurfum að brjóta niður fæðuna til þess að geta nýtt næringarefnin eða geymt þau. En hluta af grænmetisfæðu er ekki hægt að brjóta alveg niður og melta, t.d trefjar og því nýtast þær ekki sem hitaeiningar. Þetta getur orsakað þá umræðu um allar þær “extra” hitaeiningar sem maður getur allt í einu borðað.

En auðvitað hefði það verið algjörlega frábært að fá að borða eins mikið og maður vill svo framarlega sem það væri plöntufæði 😊

veganBlog.jpg
Guest User